Fæðingarskráningin á Íslandi birtir skýrslu fyrir árið 2014. Í henni eru ítarlegar upplýsingar um fæðingar á Íslandi á því ári. Landlæknisembættið hefur yfirumsjón með fæðingarskráningunni sem er staðsett á kvennadeildum Landspítala.
Guðrún Garðarsdóttir er ritari hennar.
Skýrsla frá fæðingarskráningunni fyrir árið 2014
Úr skýrslunni:
Fæðingar voru alls 4.292 og 4.363 börn fæddust á Íslandi á árinu 2014.
Þetta er svipaður fjöldi og á árinu 2013 en þá fæddu 4.236 konur 4.307 börn. Fæðingum hafði fækkað talsvert frá 2010 þegar 4.903 börn fæddust.
Aldrei hafa fæðst fleiri börn á Íslandi en árið 2009 en þá fæddust 5.015 börn.
Meðalfjöldi fæðinga síðasta áratug, 2005-2014, er 4.504 á ári.
Tíðni keisaraskurða á Íslandi var 15,6% árið 2014 og tíðni áhaldafæðinga 7,9%.
Tíðni burðarmálsdauða (BMD) var 4,3/1000 fædd börn, þegar öll börn fædd andvana eftir 22 vikna meðgöngu/500g fæðingarþyngd eru talin með.
Tíðni BMD hefur verið lág á undanförnum áratug en sveiflast talsvert eftir árum vegna þess hve þýðið er lítið.
Meðaltalstíðni BMD á síðasta áratug, 2005-2014, var 4,3/1000 en meðaltal síðustu 5 ára, 2010-2014, var 3,3/1000.