Fjármögnun uppbyggingar Landspítala við Hringbraut verður í væntanlegri fjármálaáætlun ríkisins, sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í ávarpi sínu á ársfundi Landspítala 25. apríl 2016. Forstjóri fagnaði þeim stórtíðindum í ræðu sinni. Ráðherrann nefndi annað sem sætir miklum tíðindum á Landspítala, þ.e. að tekin verði upp framleiðslutengd fjármögnun í rekstri spítalans.
Nýr Landspítali
„Í fjárlögum 2015 samþykkti Alþingi að veita einum milljarði króna til verksins. Árið 2016 eru tæpir tveir milljarðar ætlaðir í Nýjan Landspítala og nú stefnir í stórtíðindi, því fimm ára fjármálaáætlun ríkisins verður kynnt á næstu dögum og ég get sagt það strax að þar er í fyrsta sinn áætlað fyrir milljarða framkvæmdum við meðferðarkjarna nýs spítala sem rísa mun á lóð Landspítalans við Hringbraut í samræmi við áætlanir og ákvarðanir stjórnvalda og fyrirliggjandi skipulag. Í áætluninni er tryggt fjármagn sem gerir kleift að bjóða út framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna strax og hönnunarferlinu lýkur árið 2018.“
Framleiðslutengd fjármögnun
„Góðir gestir, ég fer nú að stytta mál mitt en vil þó ekki hætta öðru vísi en að nefna stöðuna á innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar í bráðaþjónustu samkvæmt svokölluðu DRG kerfi líkt og notað er í flestum nágrannalöndum okkar. Það hefur verið lögð í þetta mikil vinna en nú sjáum við til lands og ég reikna með að fljótlega verði gerður samningur sem kveður á um innleiðinguna. Til að byrja með verður kerfið prufukeyrt án rauntengingar við fjármögnunina en á næsta ári ætti þetta að verða virkt fjármögnunarkerfi á Landspítalanum.
Lesa hér ávarp heilbrigðisráðherra