Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, fagnaði í ávarpi sínu á ársfundi Landspítala 2016 þeim áföngum sem orðið hafa við uppbyggingu spítalans eftir að heilbrigðisráðherra lýsti yfir því fyrir réttu ári að kyrrstaða i þeim efnum hefði verið rofi. Síðan hefur verið byrjað á byggingu sjúkrahótels og fullnaðarhönnun meðferðarkjarna.
Í ræðu sinni fór forstjórinn ínn á það sem hann kallaði stærstu ógnuna við Landspítala:
„Ég get ekki látið hjá líða að nefna stærstu ógnina við Landspítala, raunar heilbrigðisþjónustuna um heim allan. Skortur á fólki sem menntar sig í heilbrigðisvísindum og tengdum greinum er alvarlegur. Mjög alvarlegur. Við sjáum fækkun nýliða í hjúkrunarfræði sem er hryggjarstykkið í starfi hvers spítala. Sama gildir um aðrar mikilvægar stéttir svo sem lífeindafræðinga og geislafræðinga - svo eitthvað sé nefnt. Þetta gerist á sama tíma og við vitum að þjóðin eldist hratt og ljóst að þörfin fyrir þjónustu þessara stétta verður gríðarleg. Við þurfum að gera allt til þess að gera störfin á Landspítala og í heilbrigðisþjónustunni almennt eftirsóknarverð og spennandi. Sem þau sannarlega eru og ég fullyrði að enginn gengur glaðari frá verki í vaktarlok en heilbrigðisstarfsmaður sem veit að hann hefur gert sjúklingi sínum og fjölskyldu hans gagn. Þetta er margþætt verkefni.“Ræða forstjóra á ársfundi (pdf)