Gleðilegt sumar!
Eftir þungan vetur var sannarlega ánægjulegt að fagna sumarkomu í gær, jafnvel þó að manni sýnist að hitamælar hafi gleymt að líta á dagatalið. Fram undan eru hlýrri og bjartari dagar og fram undan eru fjölmargir spennandi viðburðir í Landspítalalífinu.
Nú á mánudag er ársfundur spítalans og þangað eiga allir starfsmenn erindi. Ég hvet ykkur til að skrá ykkur á vefsíðunni okkar og hlakka til að sjá ykkur sem flest þar (link á myndband). Við ætlum að eiga kröftuga samveru þetta síðdegi, en yfirskrift ársfundarins er sjúklingurinn í öndvegi. Fjölmörg spennandi erindi eru á dagskrá sem kynna má sér hér og ég bendi sérstaklega á erindi um nýjungar í starfsemi spítalans. Einn ánægjulegasti viðburður hvers ársfundar er auðvitað þegar starfsmenn sem þið hafið tilnefnt eru heiðraðir. Sú athöfn fer fram undir lok ársfundarins en á eftir er öllum boðið í kaffi.
Mig langar einnig til að minna á "Vísindi á vordögum" sem fram fara á þriðjudaginn. Ein meginstoð starfsemi Landspítala er vísindastarfsemi og þessi viðburður er því afar mikilvægur. Fjölmörg innlegg hafa verið unnin fyrir þennan viðburð og nú í þriðja sinn höfum við tekið upp örfyrirlestra, en það form hefur mælst afar vel fyrir.
Ég hlakka til að sjá ykkur á mánudaginn og óska ykkur góðrar helgar - hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson forstjóri