Við rannsóknina var annars vegar notast við gögn úr Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar, sem nær til 18.840 einstaklinga, og hins vegar 910 sjúklinga sem greindust með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi á 35 ára tímabili. Með þessu móti var hægt að fá nákvæmar upplýsingar um fjölmarga hugsanlega áhættuþætti 225 sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein, eins og hæð, þyngd, blóðþrýsting, reykingar og hvaða atvinnu sjúklingarnir höfðu stundað. Um er að ræða einstaka rannsókn á nýrnafrumukrabbameini enda gögn Hjartaverndar höfð til grundvallar en þeim hefur verið safnað saman með skipulegum hætti síðan 1967.
Lítið vitað um orsakir
Um 3% krabbameina sem greinast á Íslandi eru nýrnafrumukrabbamein. Árlega greinast um 50 einstaklingar hér á landi með sjúkdóminn, helmingi fleiri karlar en konur og eru flestir um sextugt við greiningu. Minna er vitað um orsakir nýrnafrumukrabbameins en flestra annarra krabbameina. Íslenskar rannsóknir hafa bent til tengsla við erfðir og erlendar rannsóknir hafa sýnt hærri tíðni hjá þeim reykja. Algengustu einkenni sjúkdómsins eru kviðverkir og blóð í þvagi en megrun og slappleiki eru einnig algengar kvartanir. Í dag greinast hins vegar flestir fyrir tilviljun við myndrannsóknir af kviðarholi sem gerðar eru vegna óskyldra einkenna, t.d. við leit að gall- eða nýrnasteinum.
Hægt er að lækna staðbundið nýrnafrumukrabbamein með því að fjarlægja nýrað eða hluta þess með skurðaðgerð. Hjá þeim sjúklingum sem eru með útbreiddan sjúkdóm við greiningu, sem er um fjórðungur allra sem greinast, er hins vegar notast við krabbameinslyf.