Að vanda hafa verkefni vikunnar verið ærin. Á mánudaginn vakti ungur maður athygli á erfiðri reynslu sem hann hafði orðið fyrir er hjartaaðgerð sem til stóð að hann færi í var frestað á síðustu stundu. Því miður er þetta ekki einsdæmi. Þegar álagið er hvað mest þá er tugum aðgerða frestað í viku hverri. Ástæða þess að hjartaaðgerðum er frestað er fyrst og fremst sú að gjörgæsludeildir Landspítala eru yfirfullar. Þannig hafa rúmlega 70 hjartaaðgerðir verið skipulagðar frá áramótum - en 23 verið frestað. Álagið sem þessu er samfara fyrir sjúklinga og aðstandendur er gríðarlegt og starfsfólki sem neyðist til að fresta aðgerðum er heldur ekki skemmt. Í öllum tilvikum er viðkomandi komið í aðgerð eins fljótt og auðið er en samt sem áður þá er þetta ástand óásættanlegt.
Hvað er til ráða?
Því miður eru engar skyndilausnir til staðar. Ástæða þess að hjartaaðgerðum er frestað er sú að það skortir gjörgæslurými. Á Landspítala er mönnun til að hafa 7 gjörgæslurými opin við Hringbraut og 7 rými í Fossvogi, 14 alls. Hægt er að leggja inn allt að 4 sjúklinga í viðbót en aðeins ef líf liggur við. Þá þarf að manna aukalega og troða inn á óhentugar deildir. Lausnin á þessum vanda er hins vegar í augsýn - ekki skyndilausn heldur lausn sem búið er að vinna að frá aldamótum. Lausnin er sú að opna nýjan meðferðarkjarna - byggingu sem verið er að ganga frá lokahönnun á og sem verður ekki tilbúin degi of snemma. Í nýjum meðferðarkjarna við Hringbraut verða 24 fullbúin og fullkomin einbýli á gjörgæslu sem er aukning um 70% frá núverandi ástandi, auk þess sem aðbúnaður verður miklu betri. Að auki eru þessi rými öll á sama stað þannig að nýting á starfsfólki og búnaði verður miklu betur en við núverandi aðstæður þar sem allt of fáum rýmum er dreift á tvö staði, Hringbraut og Fossvog. Ég fullyrði að frestanir á hjartaaðgerðum vegna plássleysis á gjörgæslu heyra sögunni til í nýjum meðferðarkjarna.
Því miður er þetta aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um þá öryggisógn og þjónustubrest sem er samfara afgömlum, alltof litlum og alltof dreifðum húsum Landspítala. Mitt hlutverk er að tryggja eftir bestu getu að Landspítali veiti framúrskarandi og örugga þjónustu. Ég get ekki skrifað upp á neitt það sem tefur uppbyggingu viðunandi aðstöðu um svo mikið sem einn dag. Því verðum við að halda ótrauð áfram og tryggja að meðferðar- og rannsóknarkjarni, hús heilbrigðisvísindasviðs og sjúklingahótel rísi við Hringbraut. Þegar það er orðið að veruleika þá er mesta váin frá og svigrúm til að skoða hver eigi að vera næstu skref í uppbyggingu sjúkrahúsþjónustu. Slíkt svigrúm er ekki fyrir hendi núna.
Í vikunni kynnti starfsfólk Landspítala öryggisvegferð spítalans á ráðstefnu IHI (Institute for Healthcare Improvement) í Gautaborg, Svíþjóð. Ég læt til gamans fylgja með kynningarmyndband sem sýnt var á ráðstefnunni því mynd er á við þúsund orð.
Að lokum vil ég minna á ársfund Landspítala sem hefst klukkan 14:00 mánudaginn 25. apríl á Hilton Reykjavík Nordica hóteli undir yfirskriftinni „Sjúklingurinn í öndvegi“. Ég hvet alla sem tök hafa á til að mæta.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson