Í vikunni kvöddum við vini og samstarfsmenn sem létu af störfum aldurs vegna á árinu sem var að líða. Það er hefð að bjóða þessum fyrrverandi starfsmönnum, mökum þeirra og samstarfsfólki til samsætis og þessi samvera er afskaplega ánægjuleg. Jafnvel þó að við tölum mikið um byggingar og tæki þá vitum við auðvitað öll að starfið á Landspítala hvílir á þeim ótrúlega mannauði sem hér starfar.
Um leið og leitt er að kveðja gott samstarfsfólk þá er gaman að finna þann hlýja hug sem starfsfólkið hefur í garð Landspítala. Mér finnst sérstaklega gaman að hitta fjölskyldurnar á þessum samkomum enda gefur það tækifæri til að þakka fyrir þær ófáu stundir, t.d. um jól og aðrar hátíðar, þegar starfsfólk hefði auðvitað viljað vera með ástvinum sínum en skyldan kallaði á Landspítala. Innilegar þakkir fyrir ykkar mikilsverða framlag!
Í vikunni undirritaði heilbrigðisráðherra samkomulag um átak til að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum brýnum aðgerðum. Eins og öllum er fullvel kunnugt hafa biðlistar lengst síðustu ár, ekki hvað síst í kjölfar verkfallsaðgerða í fyrra. Því fögnum við þessu samkomulagi og ég veit að þar tala ég sérstaklega fyrir hönd starfsfólks á aðgerða- og skurðsviðum spítalans, sem hefur verið óþreytandi að tala máli sinna sjúklinga. Átakið nær til þriggja ára, við setjum sérstakan kraft í aðgerðir á þessu ári og markmiðið er að hámarksbið eftir aðgerðum verði ekki lengri en 90 dagar.
Mig langar að ljúka þessum stutta páskapistli með því að minna ykkur á að taka frá mánudaginn 25. apríl n.k. ef þið hafið kost á. Þá verður ársfundur Landspítala haldinn á Hilton hótel Nordica kl. 14:00-16:00. Yfirskrift fundarins er „Sjúklingurinn í öndvegi“. Allir eru hjartanlega velkomnir og ég vonast til að sjá ykkur sem flest.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska og þakka ykkur sérstaklega sem standið vaktina um hátíðina!