Landspítali er meðal fjögurra heilbrigðisstofnana sem taka þátt í skipulögðu átaki til að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum brýnum aðgerðum. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og forstjórar stofnananna undirrituðu samning þess efnis 21. mars 2016.
Í samningnum felst að á árinu 2016 verði ráðist í aðgerðir til að stytta til muna bið fólks eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augnsteinsaðgerðum. Ríkisstjórnin ver til þessa um 1,6 milljarði króna á árunum 2016-2018, meirihlutanum á þessu ári. Liðskiptaaðgerðum verður fjölgað um 530, augasteinsaðgerðum um 2.890 og hjartaþræðingum um 50.
Hinar heilbrigðisstofnanirnar sem eiga aðild að samningnum eru Sjúkrahúsið á Akureyri , Heilbrigðisstofnun Vesturlands og fyrirtækið Sjónlag hf.