Á ársfundi Seðlabankans í gær, 17. mars, lýsti fjármálaráðherra yfir því að vaxtasparnaður í tengslum við uppgjör slitabúa föllnu bankanna með stöðugleikaframlögum muni standa undir fjármögnun nýs Landspítala. Við sama tækifæri sagði fjármálaráðherra að þessa muni sjást merki í ríkisfjármálaáætlun sem kynnt verður nú um næstu mánaðarmót. Sú fjármögnun byggir á fyrirliggjandi áætlunum um uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Þetta voru því afar ánægjuleg tíðindi ofan í umrót síðustu daga og mikilvægt fyrir okkur að sjá að styrk forysta heilbrigðisráðherra í þessu mikla hagsmunamáli sem og einörð framganga fjölmargra annarra skilar árangri. Til hamingju, öll!
Í vikunni héldu samtökin Spítalinn okkar málþing um uppbyggingu Landspítala undir yfirskriftinni „Sameinaðir kraftar í Vatnsmýrinni“. Eins og yfirskriftin bar með sér var sérstaklega horft til þeirra mikilvægu samlegðaráhrifa sem fjölbreytt vísindastarf í Vatnsmýrinni hefur við uppbyggingu Landspítala. Meðal fyrirlesara var Klara Guðmundsdóttir, læknanemi á 5. ári við Háskóla Íslands, sem flutti afar skemmtilega tölu um reynslu sína af námi og starfi á Landspítala við núverandi aðstæður og veitti fundargestum einstaka innsýn í þá áskorun sem því getur verið samfara að starfa á sjúkrahúsinu. Það er full ástæða til að gefa sér tíma til að skoða meðfylgjandi myndband af fyrirlestri Klöru en hún er, eins og langflestir, dauðþreytt á ástandinu því eins og hún segir þá reynir á þegar álagið er hvað mest og fólk verður „að vera einhvers konar fráflæðisvaldandi, aðflæðishemjandi, útskriftarstuðlandi maskínur og það er oft mjög erfitt að stoppa og vera bara manneskja“. Erindi hennar er þörf brýning um mikilvægi þess að nýjar byggingar rísi við Hringbraut eins fljótt og auðið er.
Ársfundur Landspítala nálgast. Hann verður haldinn á Hilton Hotel Nordica 25. apríl næstkomandi. Yfirskrift fundarins er „Sjúklingurinn í öndvegi“ og við beinum sjónum að nýsköpun og framþróun í þjónustu spítalans. Einn af skemmtilegum og hefðbundnum liðum á ársfundinum er þegar mér veitist sú ánægja að heiðra samstarfsfólk okkar. Við valið verður sérstaklega horft til áherslna sem fram koma í nýrri stefnu spítalans - öryggismenning, þjónusta, mannauður og stöðugar umbætur - og þeirra gilda sem stofnunin starfar eftir en þau eru umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun. Ég hvet starfsmenn eindregið til að senda inn tilnefningar sem allra fyrst á þar til gerðu formi á innri vefnum.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson