Góðgerðarsjóður Jahá.is hefur sett af stað söfnun til styrktar móttökugeðdeild 33C á Landspítala Hringbraut. Á deildinni hafa meðal annars verið konur sem þjást af fæðingarþunglyndi, 10 til 15 árlega. Hulda Birna Vignisdóttir, ritstýra Jahá.is, er ein þeirra en henni blöskraði aðstæðurnar og ákvað grípa til sinna ráða:„ Mín upplifun var í heild sinni góð en þá er ég að vísa til þess yndislega starfsfólks sem vinnur á 33C. Starfsfólkið á mikið hrós skilið fyrir að veita frábæra aðhlynningu. Aðbúnaðurinn á deildinni er hins vegar til skammar. Innréttingar eru gamlar og slitnar og húsgögn í samræmi við það. Auk þess er aðstaða fyrir mæður og börn þeirra lítil sem engin.“
Hulda Birna ákvað að hefja söfnun til að gera deildina betur í stakk búna til að taka á móti mæðrum og börnum þeirra.
Söfnunin fer fram á jaha.is.
Nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa gefið áritaðar íþróttatreyjur í söfnunina . Þetta eru m.a. treyjur af íslensku karla- og kvennalandsliðunum í fótbolta og handbolta. Að auki er hægt að styrkja málefnið með peningaframlögum með því að hringja í söfnunarsíma 901 7111 fyrir 1.000 kr. framlag, 901 7113 fyrir 3.000 kr. framlag og 901 7115 fyrir 5.000 kr. framlag.