Bifhjólaklúbburinn Sober Riders MC hefur með stuðningi Sjónvarpsmiðstöðvarinnar og Svefns og heilsu fært móttökugeðdeild 33C á Landspítala Hringbraut að gjöf 55 tommu Finlux sjónvarpstæki og glæsilegt leðursófasett. Gjöfunum hefur verið komið fyrir í setustofu deildarinnar þar sem þær eiga eftir að nýtast vel.
Sober Riders MC klúbburinn var stofnaður í Bandaríkjunum árið 1994 en íslenska deildin varð til 2005. Auk þess er klúbburinn byrjaður að festa rætur í Noregi en hann er ekki til annars staðar á Norðurlöndum. Hér á landi eru starfandi deildir í Reykjavík og á Akureyri.
Inngönguskilyrði í klúbbinn er þau að klúbbfélagi verður að eiga a.m.k. 500 kúbika mótorhjól og vera í 12 spora samtökum. Félagsmenn eiga þannig sammerkt að hafa átt í glímu við áfengis- og vímuefnasjúkdóm.
Það er stefna félagsmanna í Sober Riders MC að láta gott af sér leiða og það gera íslensku klúbbfélagarnir með ýmsum hætti. Þeir nýta félagsgjöld sín til þess en helsta fjáröflunin er þó árleg söfnun á Þorláksmessu. Alls 6 sinnum hafa þeir staðið á Laugaveginum á Þorláksmessu og gefið vegfarendum súpu en boðið fólki um leið að setja krónur í söfnunarbauka sína. Súpuna kalla þeir „andskötusúpu“ og í henni eru ýmsir sjávarréttir en ekki þó skata! Allt söfnunarféð er svo notað í góðgerðarstarfsemi.
Að þessu sinni naut móttökugeðdeild 33C gjafmildi vélhjólaklúbbsins. Sumir félagsmanna hafa verið á geðdeildum Landspítala í tengslum við fíknivanda sinn. Einn af þeim er varaforseti klúbbsins. „Mér ofbauð aðstaðan en starfsfólkið er alveg dásamlegt.“ Hann segist til dæmis einhverju sinni hafa fengið gorm í sófanum í setustofunni upp í afturendann á sér! Það hafi því ekki vanþörf á að endurnýja húsgögnin og það hefðu klúbbfélagarnir ákveðið að gera, með góðum stuðningi vegfarenda á Laugavegi á Þorláksmessu, Sjónvarpsmiðstöðvarinnar og Svefns og heilsu.
Varaforsetinn segir að meðal klúbbfélaga sé mikil samstaða og hver leitist við að styðja annan. „Einn fyrir alla og allir fyrir einn.“ Húmor sé í hávegum hafður og matarást einkennandi. Dæmi um það sé árlegur kótelettukvöldverður. Á hverju ári fari klúbbfélagar í útilegu með fjölskyldur sínar og bjóði öðrum mótorhjólaklúbbum líka. Heimsókn til deildarinnar á Akureyri sé einnig reglulegur viðburður.