Mér hefur orðið tíðrætt um þunga stöðu á spítalanum vegna mikillar nýtingar sjúkrarúma hjá okkur. Við höfum haft áhyggjur af einstaklingum sem eru fullmeðhöndlaðir af hálfu Landspítala og gætu nýtt sér önnur úrræði utan spítalans eða þurfa aukinn stuðning til að komast aftur heim. Við höfum átt í viðræðum við velferðarráðuneytið um þessi mál og kynnt hugmyndir okkar og tillögur. Í gær tilkynnti ráðuneytið til hvaða úrræða það hyggst grípa.
Undanfarið höfum við undirbúið opnun útskrftardeildar á Landakoti og hefur ráðuneytið með tillögum sínum fallist á að styrkja verkefnið að hluta. Í gær var opnuð deild L2 á Landakoti með pomp og prakt. Á L2 munum við reka sérstaka útskriftardeild fyrir aldraða sem ætluð er þeim sem útskrifast munu heim en þarfnast sérhæfðs undirbúnings. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs en hugmyndafræði deildarinnar byggir á náinni samvinnu við heimahjúkrun, heimaþjónustu og aðstandendur. Þannig aukum við samfellu í þjónustu við aldraða og stuðlum að því að fleiri aldraðir geti dvalið lengur heima hjá sér, sem er afar eftirsóknarvert. Þetta var því afskaplega ánægjulegur dagur og ég óska okkur öllum til hamingju með deildina og starfsfólki hennar velfarnaðar.
Landspítali er stór stofnun og umfang starfseminnar mikið. Fáir þekkja alla króka og kima Landspítalans en undanfarið hefur verið unnið að kynningarmyndböndum um einstök svið spítalans. Það er áhugavert að fá örstutta innsýn í verkefni samstarfsfólks á öðrum sviðum, en í nýjasta myndbandinu kynnir Alma Möller, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, starfsemina í afar fróðlegu og skemmtilegu viðtali. Ég hvet ykkur til að horfa!
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson