Það þarf ekki að tíunda sérstaklega að síðustu vikur og raunar síðustu tveir mánuðir hafa verið óvenjuþungir á spítalanum. Landspítali er þjóðarsjúkrahús landsmanna og mikilvægasti hlekkurinn í lífsbjargandi meðferðum sem veittar eru í landinu. Til að geta sinnt þessu hlutverki er viðmiðunin sú að nýting sjúkrarúma sé ekki meiri en 85% svo unnt sé að bregðast við alvarlegum veikindum og slysum með fullnægjandi hætti. Undanfarið hefur rúmanýtingin hins vegar verið vel yfir 100% og það getur takmarkað getu okkar til að sinna þessu mikilvæga hlutverki. Það er því ekki að ástæðulausu að við leggjum þunga áherslu á að þeir sem ekki lengur þurfa á þjónustu Landspítala að halda hafi möguleika á að komast aftur heim eða þangað annað sem hægt er að veita viðeigandi þjónustu.
Við höfum farið ýmsar leiðir til að bregðast við þessu ástandi, leitað leiða til að fjölga legurýmum og notað tækifæri til að innleiða nýjungar sem eru til bóta. Sem dæmi má nefna stöðumatsfundi sem eru daglega haldnir í Fossvogi. Þar hittast stjórnendur á stuttum fundi til að fara yfir ástandið á spítalanum og leita sameiginlegra lausna á fyrirliggjandi vandamálum. Fundirnir snúast fyrst og fremst um að tryggja öryggi sjúklinga og ég tel að þeir hafi haft veruleg áhrif á hversu þó hefur vel gengið að leysa úr þeirri flóknu stöðu sem við höfum verið í að undanförnu. Að því sögðu vil ég ítreka þakkir mínar til ykkar allra sem að ég veit að leggið nótt við dag til að tryggja örugga og góða þjónustu við sjúklingana okkar, hvað sem á dynur.
Til framtíðar liggur lausnin á þessu ástandi þó utan spítalans. Við höfum átt í góðu samstarfi við heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins sem og hjúkrunarheimili. Uppbygging þjónustu við aldraða er afar mikilvæg og efling heilsugæslunnar einn af lykilþáttum í betri heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll. Í vikunni kynnti heilbrigðisráðherra tillögur sínar um eflingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þótt fólk líti á útfærslu einstakra þátta mismunandi augum þá er full ástæða til að fagna því að uppbygging heilsugæslunnar er á dagskrá.
Í vikunni náðist sá frábæri áfangi að nú verða framkvæmdar heilaaðgerðir með þræðingartækni hér á landi. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að öryggi sjúklinga með sjúkdóma í æðum heila- og taugakerfisins eflist til muna en áður hafa sjúklingar þurft að fara utan til þessara aðgerða með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Eins og áður þegar við innleiðum nýja tækni af þessu umfangi þá hefur hún ekki einungis góð áhrif fyrir sjúklinga heldur eflir hún okkur sem háskólasjúkrahús og gerir okkur að áhugaverðari vinnustað fyrir okkar vel menntaða heilbrigðisstarfsfólk.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson