Forystumenn á kvenna- og barnasviði Landspítala hafa tekið á móti fé sem starfsmenn Arionbanka kusu að rynni til starfsemi á vegum sviðsins.
Í tilefni af 80 ára afmæli starfsmannafélags Arion banka lagði bankinn fram 25 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann sem renna munu til góðgerðarmála sem tengjast velferð barna. Hver og einn starfsmaður fékk tækifæri til að velja félag sem stuðlar að bættum hag barna. Talsverður fjöldi starfsmanna valdi að styrkja starfsemi Landspítala. Gjafasjóður BUGL, barna- og unglingageðdeildar, hlaut 1.725.000 kr., Gjafasjóður vökudeildar Barnaspítala Hringsins 1.650.000 kr. og Rjóður, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik börn, 1.200.000 kr. Að auki hlaut Hringurinn 1.325.000 kr. að gjöf.
Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs, tók á móti framlaginu fyrir Rjóður og vökudeild en Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir yfirlæknir og Linda Kristmundsdóttir, deildarstjóri göngudeildar BUGL, framlaginu til barna- og unglingageðdeildar.