Við finnum nú af miklum þunga fyrir áhrifum inflúensufaraldurs sem herjar á landann. Það er ekkert sem kemur okkur á óvart enda inflúensan og fleiri umgangspestir árviss gestur á þorra. Nú eru í gangi þrír stofnar inflúensunnar, tveir af stofni A og einn af stofni B. Þó að við séum ýmsu vön þegar að þessum málum kemur þá eru aðstæður á spítalanum óvenju erfiðar eins og flestum er kunnugt um. Nýting legurýma hefur verið yfir 100% og útskriftir ganga hægar en viðunandi er. Því er ástandið þungt bæði á bráðamóttöku og öðrum deildum og höfum við þegar gripið til aðgerða til að mæta því eftir þvi sem unnt er. Brýnt er að fólk leiti ekki á bráðamóttökuna nema nauðsyn beri til, auk þess sem mikilvægt er að aðstandendur með flensulík einkenni fresti heimsóknum. Við munum fylgjast náið með þróun mála.
Næsta sunnudag, þann 21. febrúar, á sjálfan konudaginn, beinum við athyglinni að hjarta- og æðasjúkdómum hjá konum. Þennan dag er GoRed dagurinn sem er helgaður árverkni um mikilvægi forvarna enda eru hjarta- og æðasjúkdómar ein algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi. GoRed er samstarfsverkefni fjölmargra aðila, þar á meðal hjartadeildar Landspítala og verður fræðslu- og skemmtidagskrá í Iðnó þennan dag.
Í síðustu viku voru svokallaðir framadagar í Háskólanum í Reykjavík. Þar er um að ræða árlegan viðburð í háskólalífinu sem gerir háskólanemum kleift að kynna sér fyrirtæki og stofnanir og þau framtíðarstörf sem þar bjóðast. Við tókum nú þátt í framadögum í annað sinn og það var ánægjulegt að hitta allt það unga fólk sem er spennt fyrir Landspítala, stærsta og sennilega fjölbreyttasta vinnustað landsins.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin.
Páll Matthíasson