Fyrsta steypuvinnan í heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut var fimmtudaginn 18. febrúar 2016. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra stýrði steypudælunni fimlega en byrjað var á því að steypa undirstöður vegna fyrsta þrifalags undir tæknigöngum. Miklar jarðvegsframkvæmdir hafa verið á svæðinu milli K-byggingar og kvennadeildahúss að undanförnu í aðdraganda byggingar sjúkrahótels þar og lagningar nýrrar innkeyrslu að Landspítala Hringbraut frá Barónsstíg.