112 dagurinn er haldinn um allt land í dag, fimmtudaginn 11. febrúar 2016, og er sjónum að þessu sinni beint að almannavörnum.
112 dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítali, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.
20 ára afmælishátíð Neyðarlínunnar 112 kl. 16 í dag
Neyðarlínan fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir. Þann 1. janúar síðastliðinn voru liðin 20 ár síðan samræmda, evrópska neyðarnúmerið 112 var tekið í notkun hér á landi. Það leysti af hólmi 146 mismunandi númer viðbragðsaðila sem almenningur notaði til að leita eftir aðstoð, allt eftir því hvar fólk var statt og hvers eðlis þörfin fyrir aðstoð var hverju sinni. Tvítugsafmælinu verður fagnað við athöfn í bílageymslu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð kl. 16:00 í dag, fimmtudag.
Dagskrá
Ávarp: Ólöf Nordal innanríkisráðherra
Kvennakórinn Katla
Verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2015 afhent
Gamanmál: Ari Eldjárn
Skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur