Rannsóknarsvið Landspítala leggur sitt af mörkum í þeirri viðleitni starfsmanna spítalans að setja setja sjúklinginn í fyrsta sæti og þjóna honum af öryggi og fagmennsku. Það er til dæmis gert með því að flýta rannsóknum sem mest og láta ekki flæði sjúklinga tefjast með bið eftir rannsóknarniðurstöðum. Allar deildir sviðsins hafa breytt vinnuferlum með stöðugu umbótastarfi og náð að stuðla að bættri starfsemi sjúklingum til hagsbóta. Mikilvægt er að hafa umbótastarfið stöðugt, halda áfram að hafa sjúklingin í öndvegi og gera þær rannsóknir sem þarf að gera en ekki aðrar.
Hér eru dæmi um það sem hefur gerst á síðustu mánuðum:
BD MAX: Nýtt tæki á sýklafræðideild
Tækið getur greint margar tegundir af bakterium, veirum, sveppum og sníkjudýrum beint í sjúklingasýnum, þ.e. á mun styttri tíma en áður hefur verið.Greinir MÓSA á fáeinum klukkustundum í staðinn fyrir 2 dögum með ræktun. Tækið er komið í fullan gang og virkar vel. Þetta er mikilvægt til að draga úr þörf fyrir einangrun mjög veikra sjúklinga.
Fljótlega fara í gang greiningar á fleiri sýklum í þessu tæki svo sem VRE (VÓE, vankómýsín ónæmum enterókokkum).
MALDI-ToF: Nýtt tæki á sýklafræðideild
Tæki sem getur greint bakteríur og sveppaþyrpingar á örfáum mínútum. Þetta tæki er nýkomið í notkun og þjálfun lífeindafræðinga stendur yfir. Til að geta gert þessar greiningar þarf fyrst að rækta bakteríurnar/sveppina á skálum (í 6-24 klst). Greiningin tekur því um sólarhring í stað 2-3 sólarhinga áður. Þegar greiningin liggur fyrir þarf eftir sem áður að gera næmispróf sem tekur þá annan sólarhring. Þetta er öruggari og mun betri tækni en áður var þekkt og niðurstöður rannsókna berast fyrr.
Inflúensa
Myndgreining
Breytt verklag og metnaður starfsmanna á myndgreiningardeild hefur hjálpað til við að stytta biðlista á mörgum stöðum. Til að mynda bíða nokkrir tugir eftir segulómskoðun en ekki 700 sjúklingar eins og var fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Veruleg breyting til batnaðar.
Flæðilínan
Ný flæðilína á rannsóknarkjarna hefur tryggt aukin afköst, betra flæði rannsókna og allar niðurstöður berast fyrr en áður. Hraðari og skilvirkari vinna og betri nýting hvarfefna leiðir til styttri svartíma og þannig öflugri og betri heilbrigðisþjónustu