Almannavarnir eru þema 112 dagsins sem verður haldinn um allt land 11. febrúar 2016. Auk þess verður þess minnst sérstaklega að 1. janúar síðastliðinn voru liðin 20 ár síðan evrópska neyðarnúmerið 112 var tekið í notkun. Það var mikið framfaraskref í neyðarþjónustu en áður hafði almenningur aðgang að neyðarþjónustu í gegnum 146 mismunandi símanúmer viðbragðsaðila, allt eftir því hvar fólk var statt á landinu og hvers eðlis þörfin fyrir aðstoð var.
Samstarfsaðilar 112 dagsins eru Neyðarlínan, Ríkislögreglustjórinn, Mannvirkjastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, Landlæknisembættið, Landspítali, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.