Fyrir þá sem starfa og fá þjónustu á Landspítala Hringbraut fer ekki á milli mála að uppbygging er hafin. Verið er að grafa fyrir sjúklingahóteli og húsi fyrir jáeindaskanna. Samhliða höfum við að undanförnu unnið hörðum að undirbúningi fyrir lokahönnun meðferðakjarnans sem rís við Hringbraut. Við erum komin á fleygiferð til framtíðar!
Okkur veitir ekki af stöðugt nýjum og ferskum hugmyndum um flæði sjúklinga. Auðvitað skiptir miklu staða úrræða utan spítalans en heilbrigðisráðherra hefur falið okkur og fleirum að vinna með ráðuneytinu að málinu. Við höfum tekið ákvörðun um að opna endurhæfingardeild á Landakoti í mars, endurhæfingarrýmum á Eir hefur verið fjölgað og fleiri verkefni verða kynnt innan skamms. Samhliða horfum við sífellt í okkar eigin ferla og leitum lausna sem eru stundum nærtækari en okkur gæti grunað.
Að lokum langar mig til að nota tækifærið og óska kollegum okkar og vinum á Sjúkrahúsinu á Akureyri innilega til hamingju en Sjúkrahúsið á Akureyri hlaut nú í vikunni alþjóðlega gæðavottun á starfsemi sinni. Ekki einasta er SAk fyrst heilbrigðisstofnana á Íslandi til að hlotnast þessi heiður heldur skýtur sjúkrahúsið öllum á Norðurlöndum ref fyrir rass. Þetta er til mikillar fyrirmyndar og ber frábæru starfi starfsfólks og stjórnenda gott vitni.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson