Átak til að útrýma lifrarbólgu C formlega hafið - María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs á Landspítala, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Páll Matthíasson forstjóri Landspítala, Sigurður Ólafsson, sérfræðilæknir á Landspítala, og Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri Sjúkrahússins Vogs.
Fyrstu sjúklingarnir verða kallaðir til meðferðar í næstu viku en átakið verður í áföngum og um 200 sjúklingar teknir til meðferðar hverju sinni.
Talið er að 800-1.000 einstaklingar séu smitaðir af lifrarbólgu C hér á landi. Stefnt er að því að bjóða öllum sem greindir eru með smit meðferð innan tveggja ára með lyfinu Harvoni sem lyfjafyrirtækið Gilead leggur til verkefnisins. Harvoni er eitt þeirra nýju lyfja sem veita hvað bestan meðferðarárangur og leiðir til lækningar hjá langflestum sem fá meðferð. Lyfin eru gefin í töfluformi daglega meðan á meðferð stendur, að jafnaði í átta til tólf vikur.
Átak sem miðar að því að útrýma lifrarbólgu C
Lifrarbólga C er alvarlegur og í mörgum tilvikum lífshættulegur sjúkdómur þar sem þekktar afleiðingar eru skorpulifur, lifrarkrabbamein og lifrarbilun. Lifrarbólga C er víða um heim algengasta ástæðan fyrir lifrarígræðslu og á Norðurlöndunum stefnir einnig í þá átt, þ.m.t. á Íslandi.Jafn umfangsmikið meðferðarátak við lifrarbólgu C og hér um ræðir á sér vart fordæmi, meðal annars vegna þess hve dýr lyfin eru. Meðferð er jafnan takmörkuð við þá sem eru komnir með lifrarskemmdir á ákveðnu stigi af völdum sjúkdómsins. Ávinningurinn af átaki sem miðar að því að útrýma lifrarbólgu hér á landi ætti því að vera afar mikill fyrir heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið þar sem nýgengi skorpulifrar gæti lækkað og þörf fyrir lifrarígræðslur minnkað. Góður árangur af átakinu getur líka orðið öðrum löndum hvatning í baráttunni gegn þessum útbreidda og alvarlega sjúkdómi.
Lyfjafyrirtækið Gilead leggur lyfið Harvoni til verkefnisins í faraldsfræðilegu rannsóknarskyni. Samhliða meðferðarátakinu fara fram rannsóknir á árangri þess til lengri og skemmri tíma, m.a. á sjúkdómsbyrði og áhrifum á langtímakostnað við heilbrigðisþjónustu.
Samstarf við SÁÁ
Embætti sóttvarnarlæknis, sem fer með yfirumsjón með verkefninu á grundvelli sóttvarnarlaga, hefur falið Landspítala umsjón með meðferðarátakinu og gert samning við spítalann þess efnis. Samningurinn gerir göngudeildum Landspítala kleift að hafa samband við og bjóða öllum einstaklingum á Íslandi sem greinst hafa með lifrarbólgu C og njóta sjúkratryggingar hér á landi lyfjameðferð gegn sjúkdómnum. Jafnframt heimilar þessi samningur Landspítala að starfa með öðrum heilbrigðisstofnunum að framgangi þessa átaks. Aðalsamstarfsaðili verður SÁÁ en á sjúkrahúsinu Vogi hefur verið unnið mikilvægt starf við skimun fyrir lifrarbólgu C hjá áhættuhópum og einnig á sviði forvarna. Meginstarfsstöðvar átaksins verða því þrjár, á Landspítala Hringbraut, Landspítala Fossvogi og Sjúkrahúsinu Vogi.
Haft verður samband við sjúklinga til að bjóða þeim meðferð.Upplýsingasíða
Stofnuð hefur verið upplýsingasíða um meðferðarátakið á vef Landspítala, auk þess sem upplýsingar eru veittar í gjaldfrjálsu símanúmeri:
- www. landspitali.is/medferdaratak
- Gjaldfrjáls upplýsingasími: 800 1111.