Í gær var tekin í notkun ný flæðilína á rannsóknarstofum okkar við Hringbraut. (Sjá líka myndband fyrir neðan) Þessi öflugi tækjakostur er fjármagnaður af tækjakaupafé spítalans og er þannig hluti af vel heppnuðu samstarfi okkar og stjórnvalda um tækjakaupaáætlun sem nú er í gildi. Sérstaklega er ánægjulegt að flæðilínan sameinar svo margt sem við leitumst við að ná í framþróunarverkefnum; öryggi sjúklinga eykst með styttri biðtíma eftir niðurstöðum rannsókna, öryggi starfsmanna eykst vegna minni höndlunar með blóðsýni og hagkvæmni í rekstri er umtalsverð enda gert ráð fyrir sparnaði í rekstrarkostnaði um tugi milljóna hið minnsta á ári. Búnaður af þessu tagi er heldur ekki á hverju strái og með innleiðingu flæðilínunnar stöndum við a.m.k. á pari við þau sjúkrahús sem við berum okkur saman við.
Flæðilínan er sett upp í hjarta uppbyggingar Landspítala við Hringbraut og það er ekki tilviljun. Þar eru nú miklar framkvæmdir við byggingu sjúkrahótels og húsnæðis fyrir jáeindaskanna. Allt kemur þetta heim og saman við ákvarðanir Alþingis um uppbygginu húsnæðis Landspítala við Hringbraut sem nú er hafin af fullum krafti. Áhugamenn um byggingu Landspítala á öðrum stað en Hringbraut geta því einbeitt sér að staðarvali fyrir nýjan Landspítala sem reisa þarf 20-30 árum eftir að öll starfsemi hefur verið sameinuð í viðunandi húsnæði við Hringbraut. Í raun er ekki seinna vænna að hefja það verk í ljósi þess hve langan tíma hefur tekið að hefja þessa bráðnauðsynlegu uppbyggingu við Hringbraut.
Dagurinn í dag markar afar ánægjuleg tímamót því nú hefst átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi. (Sjá líka myndband fyrir neðan)
Lýðheilsuátak af þessu tagi á sér vart fordæmi á heimsvísu og því er það sérstaklega gleðilegt að við undirbúninginn, sem staðið hefur í rúmt ár, voru starfsmenn Landspítala fremstir meðal jafningja. Hér er um að ræða víðtækt samstarf fjölmargra aðila; Landspítala, velferðarráðuneytis, sóttvarnarlæknis og SÁÁ á grunni samstarfsverkefnis íslenskra heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead. Við eigum von á fyrstu sjúklingunum strax í næstu viku og stefnt er að því að bjóða öllum þeim ríflega 800 einstaklingum sem smitaðir eru af lifrarbólgu C á Íslandi þessa mikilvægu meðferð.
Áfram er afar mikið álag á bráðadeildum okkar sem og bráðamóttöku. Mikið aðstreymi sjúklinga er til spítalans og útskriftir fullmeðhöndlaðra sjúklinga ekki sem skyldi. Áfram er unnið að lausnum á þessum málum og ég vonast til að geta kynnt þær á næstu dögum. Ég veit að víða hefur keyrt algerlega um þverbak í álagi á starfsfólk og þó það sé létt í vasa vil ég þakka ykkur öllum fagmennsku og yfirvegun við þessar erfiðu aðstæður.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson