Ný og afkastamikil rannsóknartæki voru formlega gangsett á rannsóknarkjarna Landspítala 21. janúar 2016.
Rannsóknarkjarni er rekinn bæði við Hringbraut og í Fossvogi og er stærsta klíníska rannsóknarstofa landsins. Þar eru gerðar um 1,5 milljónir rannsókna á ári í blóðmeina- og klínískri lífefnafræði. Í tengslum við endurnýjun á tækjabúnaði var húsnæði kjarnans endurskipulagt bæði við Hringbraut og í Fossvogi og var aðferðafræði straumlínustjórnunar notuð við verkið.
Til að bæta flæði sýna og starfsumhverfi hafa helstu rannsóknartæki verið færð nær hvert öðru og við Hringbraut var þeim komið fyrir í sérstökum tækjasal með flæðilínu. Sams konar flæðilína var sett upp samtímis á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Flæðilínan undirbýr sýnin fyrir rannsóknir, flytur þau á milli rannsóknartækja og gengur frá þeim eftir að þau hafa verið rannsökuð. Ávinningur af endurnýjun tækjanna felst í auknum afköstum, styttri svartíma rannsókna, bættri smitgát og aukinni hagkvæmni í rekstri.
Flæðilína á rannsóknarkjarna Landspítala - Einfölduð teikning af tækjabúnaði fyrir for- og eftirgreiningarfasa og rannsóknartækjum. Mismunandi einingar heildarsamstæðu: I) inn- og útgangseining, II) skilvindur, III) aftöppunareining, IV) rannsóknartækjasamstæða A V) rannsóknarsamstæða B, VI) pípettuþjarki, VII) töppunareining, VIII) kæliskápur.