Tæki og búnaður fyrir 16 milljónir til Grensáss frá Lionsklúbbunum Ægi og Fjölni
Lionsklúbbarnir Ægir og Fjölnir í Reykjavík hafa, með stuðningi fjölda einstaklinga og fyrirtækja, fært endurhæfingardeildinni að Grensási að gjöf fjölbreyttan tækjabúnað að andvirði um 16 milljóna króna. Þetta eru 17 sjúkrarúm, 15 dýnur í sjúkrarúm, 2 loftdýnur og 5 náttborð á hjúkrunardeild. Til iðjuþjálfunar voru gefnir 7 hjólastólar, 2 sessur, skaftryksuga og juðari. Auk þessa fékk starfsemin á Grensásdeild tölvu, 2 meðferðarbekki, þrekhjól, sturtustóla í sundlaug, trissu ásamt trissubekk til þjálfunar á öxlum, 2 fóta- og handhjól og 2 háar göngugrindur til sjúkraþjálfunar. Talmeinaþjónustuna fékk tæki til að styrkja öndun, rödd og kyngingu, ISO-þjálfa til kyngingar, tungustyrktarmæli og málhljóðapróf.
Lionsklúbbarnir tveir sameinuðu á síðasta ári krafta sína með söfnun fyrir Grensásdeildina. Í forsvari söfnunarinnar var Egill Ágústsson, fyrrverandi forstjóri Íslensk Ameríska , sem notið hefur umönnunar deildarinnar. Árlegt kútmagakvöld klúbbanna tveggja var til dæmis árið 2015 tileinkað þessari söfnun en fyrir þeirri samkomu hefur Ægir staðið nærri hálfa öld. Síðustu 5 árinu hafa klúbbarnir haldið kútmagakvöldið saman. Þetta er herrakvöld með úrvali sjávarfangs og líflegum skemmtiatriðum, happdrætti og málverkauppboði og allir gefa framlag sitt.
Lionsmenn úr Ægi og Fjölni afhentu stórgjöfina formlega á Grenásdeild 15. janúar 2016 og kynntu sér starfsemina um leið.