Gleðilegt ár! Ég vona svo sannarlega að hátíðarnar hafi fært ykkur frið og ánægjulega samveru með vinum og fjölskyldu.
Í upphafi árs er mikilvægt að horfa fram á veginn. Það er mér ánægja að kynna ykkur afrakstur vinnu fjölmargra starfsmanna við stefnu og starfsáætlun spítalans. Allt sem við gerum lýtur að því að efla öryggi sjúklingsins og bæta við hann þjónustuna. Af sömu ástæðu leggjum við áherslu á mannauð, menntun og vísindastarf sem og hagkvæman rekstur þar sem við leitumst alltaf við að lágmarka sóun. Tilgangur stefnu og starfsáætlunar er að setja þessi markmið okkar skýrt fram og vera vegvísir í daglegum störfum. Skilaboðin eru þau að sjúklingurinn er ávallt í öndvegi. Þessi vinna verður kynnt nánar á næstu vikum og mánuðum og ég vil biðja ykkur að fylgjast vel með því.
Óhætt er að segja að nýja árið fari af stað með trukki og dýfu. Jafnvel þó að við séum ýmsu vön í upphafi árs og gerum ráð fyrir miklum önnum þá hefur nánast keyrt um þverbak síðustu daga. Gríðarlegur innlagnaþungi er á spítalanum en eins og oft áður hafa útskriftir gengið hægar en æskilegt væri. Samt hafa allir lagst á eitt og við fengið aðstoð sjúkrahúsa og stofnana um land allt til að bregðast við þessari þungu stöðu.
Í þessu samhengi er rétt að segja frá því að nýlega var tekið upp sameiginlegt stöðumat á spítalanum sem fram fer daglega í Blásölum í Fossvogi. 90% bráða- og legudeilda hafa innleitt stöðumat og sameiginlegt stöðumat er eðlilegt næsta skref. Þetta eru stuttir og markvissir tilkynningarfundir þar sem farið er yfir þá öryggisþætti sem mikilvægastir eru fyrir daglegan rekstur deilda Landspítala. Markmið fundanna er að auka öryggi starfsfólks og sjúklinga, bæta upplýsingaflæði, auka aðstæðuvitund og stuðla að fyrirbyggjandi aðgerðum eftir því sem við á. Fyrstu fundirnir hafa nýst vel við þær erfiðu aðstæður sem nú eru hjá okkur og ég bind væntingar við frekari þróun þessara funda.
Undir lok síðustu fjárlagaumræðu var samþykkt 1.000 milljón króna framlag til velferðarráðuneytisins sem nýta á til að bæta fráflæðisvanda Landspítala, einkum til að taka á þeim erfiðleikum sem því eru stundum samfara þegar útskrifa á eldra fólk sem lokið hefur meðferð á Landspítala. Við vinnum hörðum höndum þessa dagana að tillögum um leiðir til að létta á þessum vanda sem blasir við til næstu vikna og mánaða. Öll vitum við að aðgerðir til lengri tíma eru nauðsynlegar en á þessum tímapunkti verðum við að bregðast við bráðri stöðu.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin.
Páll Matthíasson