Nú hefjum við vegferðina aftur að vorinu. Dimmasti dagur ársins er að baki og jafnvel þótt daginn lengi aðeins um andartak þá munar um hverja ljósglætu.
Árið sem nú er að líða var að vanda tíðindamikið á Landspítala. Það var undirlagt kjaradeilum sem höfðu veruleg áhrif á starfsemi spítalans og mun taka langan tíma að vinda ofan af. Ekki lauk þeim heldur öllum í sátt, sem er sýnu verra. Verkefnið var fyrst og síðast að tryggja öryggi sjúklinga við þessar erfiðu aðstæður og full ástæða til að þakka starfsfólki mikið og óeigingjarnt starf. Mikið álag hefur verið á spítalanum mestan part ársins og bráðalegudeildir alla jafna yfirfullar.
Eftir miklar umræður á Alþingi undir lok fjárlagaumræðunnar var ánægjulegt að sjá þingið samþykkja tillögu heilbrigðisráðherra um aukið fé til viðhalds á Landspítala og til verkefna tengdum fráflæði sjúklinga. Þetta er mikilvægt framlag og dregur úr áhyggjum spítalans, þótt verkefnin séu áfram ærin.
Á árinu urðu fjölmargir jákvæðir atburðir. Mikilvægastur var að líkindum undirritun útboðs fyrir meðferðarkjarna við Hringbraut og upphaf framkvæmda við sjúklingahótel nú í nóvember. Loks hefur þessu mikilvæga verkefni verið ýtt úr vör og fjöldi starfsmanna hefur sótt vinnustofur og lagt sitt til hönnunarinnar.
Fjölmargir lögðu gott til Landspítala og telja velunnarar spítalans þúsundir. Á árinu fengum við aðgerðarþjarka í hús, endurbætur voru gerðar á húsnæði kvennadeildar, Barnaspítalinn fékk fjölmargar gjafir og nú er von á jáeindaskanna. Hlýhugur landsmanna í garð þjóðarsjúkrahússins og vilji til að efla það á hverja lund verður ekki dreginn í efa.
Loks verður ekki hjá því komist að nefna að okkur öllum var mikið létt þegar sýknudómur fékkst í máli ríkissaksóknara gegn samstarfskonu okkar og Landspítalanum sjálfum. Málinu verður ekki áfrýjað og er það farsæl niðurstaða í þessu ömurlega máli. Í kjölfarið höldum við ótrauð áfram okkar öryggisvegferð enda drögum við mikilvæga lærdóma af málum sem þessum. Dómsmál af þessu tagi mega hins vegar ekki endurtaka sig. Ásta Kristín Andrésdóttir mátti ganga þessi svipugöng í þrjú ár og varða veginn fyrir okkur hin. Hún sýndi mikinn styrk við fordæmalausar aðstæður og dró fram alla þá bestu kosti sem starfsmenn Landspítala sýna alþjóð á degi hverjum; fagmennsku og hlýju.
Ég vil að lokum senda ykkur öllum kærar jólakveðjur. Um hátíðar gerum við ráð fyrir að um 1.000 manns verði við störf á Landspítala og vil ég sérstaklega senda þeim góðar kveðjur.
Að lokum læt ég fylgja með hugvekju frá sr. Vigfúsi Albertssyni, sjúkrahúspresti hér á Landspítala.
Páll Matthíasson