Málið og málsmeðferðin öll hefur vakið margar spurningar hjá mér sjálfum eins og sjálfsagt flestum ykkar. Það var því afar gagnlegt að eiga opna fundi í gær með starfsfólki um málið þar sem málið var reifað og góð samræða um það skapaðist (sjá myndbandið)
Það kom berlega í ljós að enda þótt niðurstaða sé komin í þetta mál er ljóst að óvissu hefur ekki verið eytt í málum sem þessum. Rík tilkynningaskylda gildir um alvarleg atvik á heilbrigðisstofnunum og hvað Landspítala varðar eru að jafnaði 8 til12 slík árlega tilkynnt til landlæknis og helmingur þeirra einnig til lögreglu. Það ríður því á að ferlið sem við höfum hafi burði til að meðhöndla svo flókin mál sem alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu eru. Því er fagnaðarefni að í byrjun árs skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp til að móta tillögur um verklag í tengslum við alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu. Starfshópurinn skilaði tillögunum í september sl. en meðal þeirra er að komið verði á samstarfi milli landlæknis og lögreglu við rannsókn alvarlegra atvika. Með slíku samstarfi væri hægt að tryggja viðeigandi þverfaglega þekkingu við rannsókn þessara mála. Þá gerir nefndin það að tillögu sinni að horft verði til þeirrar aðferðarfræði sem beitt er við rannsókn samgönguslysa sem og þeirra fyrirmynda sem finna má í nágrannalöndum. Ekkert af þessu undanskilur heilbrigðisstarfsfólk almennum hegningarlögum enda ræðum við hér atvik sem verða án ásetnings eða meiri háttar afglapa í starfi. Markmið rannsókna af þessu tagi er alltaf að skoða þá flóknu ferla sem leiða til alvarlega atvika með það að markmiði að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig. Þannig lærum við og bætum þjónustu og öryggi sjúklinga sem á eftir koma.
Ég óska ykkur góðrar helgar hvort sem þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson