Frá farsóttarnefnd Landspítala:
Ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku var um margt mjög óvenjulegur og reyndi mikið á innviði heilbrigðisþjónustu bæði í Afríku og á Vesturlöndum. Í heild létust 11.300 af þeim 28.600 sem veiktust.
Undirbúningur ebóluverkefnisins á Landspítala var eitt flóknasta verkefni sem við höfum þurft að leysa og það með mjög stuttum fyrirvara. Meira en 200 manns af öllum sviðum og deildum komu að þessari vinnu. Stofnuð var ný farsóttareining sem hafði að markmiði að takast á við það flókna vandamál að sinna sjúklingum með ebólu. Fjörutíu og fjórir starfsmenn voru sérþjálfaðir til starfa á þessari nýju einingu til þess að geta sinnt öllum nauðsynlegum störfum þar og þörfum ebólusjúklinga.
Öllum starfsmönnum sem komu að þessu verkefni er þökkuð sú mikla og óeigingjarna vinna sem þeir inntu af hendi á viðsjárverðum tímum. Þetta sýnir enn og aftur að helsti auður stofnunar eins og Landspítala er mannauðurinn og geta og vilji starfsmanna til að takast á við erfið og mögulega hættuleg verkefni fyrir samfélagið.