Ályktun læknaráðs Landspítala um starfskilyrði á Landspítala
9. desember 2015
Stjórn læknaráðs Landspítala lýsir yfir vonbrigðum með að meirihluti fjárlaganefndar Alþingis, svo og fjármálaráðuneytið og ráðuneyti heilbrigðismála byggi fjárveitingar til Landspítalans á mönnunaráætlunum sem ekki er í samræmi við álag sem er á starfseminni.
Nauðsynlegt er að því sé sýndur fullur skilningur að mæta þurfi vaxandi eftirspurn eftir þjónustu spítalans, sem vex að meðaltali um tæp 2% á milli ára. Læknar og annað starfsfólk Landspítala eru nú þegar undir of miklu álagi í störfum sínum og búa við ófullnægjandi og þröng starfsskilyrði í mörgum tilvikum, sem bæta þarf úr.
Ábyrgð á starfsemi Landspítalans, þjónustu við sjúklinga og öryggi þeirra liggur hjá heilbrigðisyfirvöldum. Alþingi ber að tryggja að fjármögnun starfseminnar sé í samræmi við verkefni og hlutverk. Það eru mikil vonbrigði að það sé ekki ætlun stjórnvalda í fjárlögum ársins 2016.