Landspítali vill ítreka samúð sína vegna fráfalls Guðmundar Bjarnasonar sem lést á gjörgæsludeild Landspítala 4. október 2012. Harmur fjölskyldu hans er mikill.
Málsmeðferð lögreglu og ríkissaksóknara í þessu máli sýnir að úrbóta er þörf við meðferð mála af þessu tagi. Dómsorðið staðfestir það mat Landspítala að aldrei hefði átt að ákæra í málinu og fagnar spítalinn niðurstöðunni. Alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu eru nær alltaf afleiðing af fjölda atburða sem raðast saman með alvarlegum afleiðingum, eins og raunin var í þessu tilviki þar sem andlát hlaust af. Landspítali gerði ítarlega innri rannsókn á málinu, s.k. rótargreiningu (root-cause-analysis) sem staðfesti þá niðurstöðu. Slík aðferðarfræði hefur rutt sér til rúms í heilbrigðisþjónustunni á undanförnum árum á alþjóðavísu. Tilgangur slíkrar skoðunar, sem ráðist er í þegar fyrir liggur að ekki var um ásetning eða afglöp að ræða, er að leita orsaka þegar alvarleg atvik verða til að unnt sé að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig.
Hið mikilvæga starf í gæða- og öryggismálum stendur og fellur með því að ríkjandi séu opin skoðanaskipti, skráning og úrvinnsla atvika, sérstaklega alvarlegra atvika, og að stöðugt sé unnið að umbótum á þjónustunni. Þeirri vegferð mun Landspítali halda áfram.