Vegna byggingar nýs sjúkrahótels, sem er að hefjast á Landspítala Hringbraut, verða breytingar á bílastæðum og innkeyrslu þar í desember 2015. Breytingarnar hefjast föstudaginn 4. desember og halda áfram í áföngum fram undir jól. Áhrif á umferð akandi og gangandi að og frá spítalanum Barónsstígsmegin verða veruleg vel fram á árið 2016.
- Gjaldskyldum bílastæðum við K-byggingu verður lokað varanlega 4. desember. Í staðinn koma nýju bráðabirgðabílastæðin fyrir framan aðalbygginguna. Þau nýju bílastæðanna sem eru nær aðalinngangi spítalans (Kringlunni) og allt svæðið við kvennadeildir og barnaspítala verða gjaldskyld.
- Fyrst um sinn verður hægt að nota útitröppurnar niður að inngangi K-byggingar en hann mun síðan lokast innan tíðar, þá verður aðalinngangur spítalans (Kringlan) jafnframt aðalinngangur K-byggingar eða þar til framkvæmdum lýkur við nýja innkeyrslu frá Barónsstíg.
- Fyrir jól verður innkeyrslunni að Landspítala Hringbraut frá Barónsstíg lokað vegna jarðvegsframkvæmda og öðrum bílastæðum milli kvennadeildar og K-byggingar. Ný innkeyrsla verður opnuð á árinu 2016 lítið eitt ofar við Barónsstíg.
- Aðalinnkeyrsla að Landspítala Hringbraut verður meðan á framkvæmdum stendur frá gömlu Hringbraut og Eiríksgötu.
- Í stað þeirra bílastæða sem verður lokað vegna framkvæmda eru komin ný bráðabirgðabílastæðin framan við aðalbygginguna (um 70 stæðum lokað og bráðabirgðabílastæðin eru álíka mörg)