Framundan er önnur umræða fjárlaga fyrir árið 2016. Rekstur Landspítala er umfangsmikill, kostnaðarsamur og flókinn. Því ríður á að umfjöllun um hann sé vönduð og byggð á bestu þekkingu, yfirvegun og yfirsýn yfir heilbrigðisþjónustuna alla. Vandi Landspítala og raunar heilbrigðiskerfisins alls liggur í því að vanfjármögnun til áratuga bitnar illa á starfseminni og verður ekki bætt í einu vetfangi. Eins og margtuggið hefur verið tók Landspítali verulega á í rekstrinum í kjölfar efnahagshrunsins og þið finnið öll fyrir því, þótt gefið hafi verið í síðustu tvö árin. Enn er talsvert í land til að við náum fyrri stöðu, eins og ég rakti í síðasta pistli. Það er ekki gaman að þurfa að fara bónarveg að Alþingi vegna sömu mála, ár eftir ár. Flestum ætti þó að vera ljóst að í upphafi var einfaldlega rangt gefið. Landspítali hefur sannarlega stokkað upp í starfseminni oftar en einu sinni, innleitt viðurkennda verkferla við endurskoðun dreifingar fjármagns og beitt aðhaldi umfram marga aðra í rekstri ríkisins. Í raun er um (sí)endurtekið efni að ræða.
Í fyrsta lagi er uppsöfnuð viðhaldsþörf húsnæðis mikil og þótt spítalanum séu ætlaðar 600 mkr á ári í viðhaldsframkvæmdir, þá er það allt of lítið fé þegar litið er til þess að Landspítali er í hundrað og þrjátíu þúsund fermetrum í 100 húsum.
Í þriðja lagi er það einnig kerfislægt vandamál að launabætur eru vanáætlaðar af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem er gömul saga og ný. Kostnaðurinn verður ekki minni þótt maður áætli hann lægri.
Í morgun var ég ásamt framkvæmdastjóra fjármálasviðs boðaður á fund fjárlaganefndar Alþingis til að veita upplýsingar um áhyggjur okkar og mat á stöðu mála. Þar útskýrðum við það, að þrátt fyrir þá fjármuni sem til spítalans hafa runnið síðustu tvö árin og við metum mikils, þá er staðreyndin sú að enn vantar töluvert upp á að fjármögnun spítalans sé í samræmi við verkefni. Framkoma forystu fjárlaganefndar og skilningsleysið á þörfum þeirrar grunnþjónustu fyrir almenning sem sjúkrahúsið veitir olli mér vonbrigðum. Vonbrigðum í ljósi mikilvægis og umfangs málaflokksins og þess skýra vilja þjóðarinnar sem kemur fram í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun; að forgangsraða eigi í þágu heilbrigðisþjónustunnar umfram annað.
Eftir sem áður er það verkefni okkar að halda ótrauð áfram og berjast með rökum og gögnum fyrir spítala okkar allra. Auðvitað þarf alltaf að sýna ráðdeild og draga úr sóun þar sem það er hægt. Það má hins vegar ekki gleyma því að Landspítali er þjóðarsjúkrahús og hornsteinn í heilbrigðis- og velferðarkerfi þjóðarinnar, eins og skýrt kemur fram í lögum nr. 40/2007. Við erum ekki að fara að setja þetta fjöregg þjóðarinnar í hættu. Besta leiðin til að standast fjárlög hlýtur að vera sú að fjármögnun sé raunhæf og í samræmi við verkefni.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin.