Vinna við ný bráðabirgðabílastæði á Landspítala Hringbraut gengur mjög vel. Það var verið að malbika þau miðvikudaginn 25. nóvember 2015, réttri viku eftir að byrjað var að grafa til að skipta um jarðveg. Framkvæmdin er því, frekar en hitt, innan áætlunar en verkinu í heild átti að ljúka undir miðjan desember. Þegar malbikun lýkur tekur við endanlegur frágangur og merkingar.
Ráðist var í þessa framkvæmd í tengslum við byggingu nýja sjúkrahótelsins sem á að rísa milli kvennadeilda og K-byggingar. Þegar undirbúningsframkvæmdir hefjast vegna þess verks snemma í desember þarf að loka um það bil 70 bílastæðum. Bráðabirgðabílastæðin nýju koma í stað þeirra sem verður lokað.