Fyrstu verðlaun, að upphæð tvær milljónir króna, hlaut verkefni Emily Diönu Lethbridge, „Icelandic Saga Map“. Þetta er landakort á Netinu sem hefur að geyma kortlagningu allra staða sem koma fyrir í Íslendingasögunum.
Önnur verðlaun hlaut verkefnið „Aðferð við að þróa seltukæra þörunga til vaxtar í sjó og aukinnar framleiðslu á andoxunarefnum“. Verðlaunafé nam einni milljón króna. Að baki verkefninu standa Sigurður Brynjólfsson, prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, Weiqi Fu, gestadósent við Háskóla Íslands og rannsóknavísindamaður við New York háskóla í Abu Dhabi, Freyr Sverrisson, BS í verkfræðilegri eðlisfræði, og Kristófer Þór Magnússon, BS í vélaverkfræði.
Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Árnason|Faktor og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem leggur sigurvegurum meðal annars til sérfræðiráðgjöf auk þess að taka þátt í dómnefndarstörfum.
Markmið samkeppni um hagnýtingarverðlaun er að hvetja starfsmenn og stúdenta til að þróa áfram hugmyndir og rannsóknarniðurstöður sem hagnýta má samfélaginu til góða.