Þann 11.11 kl.11.11 tók Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skóflustungu að sjúkrahóteli Nýs Landspítala við Hringbraut. Til vitnis þeirri snöfurmannlegu framkvæmd voru margir fyrrverandi ráðherrar heilbrigðismála sem unnið hafa málinu lið á undanförnum árum. Ráðherra undirritaði við þetta tækifæri samning við byggingarfyrirtækið LNS SAGA sem mun hefja framkvæmdir á næstu dögum. Vottar undirritunarinnar voru nokkrir stúdentar úr heilbrigðisvísindagreinum í HÍ og settu þannig mark framtíðarinnar á þennan skemmtilega dag.
Þetta var einstaklega ánægjuleg athöfn enda markar hún upphaf uppbyggingar Landspítala við Hringbraut. Samhliða því að framkvæmdir við sjúkrahótelið hefjast heldur fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans áfram en fjölmargir starfsmenn taka þátt í þeirri vinnu. Óhætt er því að segja að mikill kraftur sé í uppbyggingarstarfinu. Mikill fjöldi var viðstaddur athöfnina, starfsmenn sem og ýmsir velunnarar spítalans og glöddust innilega langþráðum áfanga.
Hér fylgir líka kynningarmyndband af geðsviði spítalans sem sýnir nýsköpunarverkefni sem bæði snúa að því að þróa nýja hluti, nýja sérhæfingu í þjónustunni. Þar er um að ræða FMB-teymið og Batamiðstöðina. Það er í samræmi við okkar áherslur að byggja brýr út í samfélagið en það er vel orðað í myndbandinu.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson