Aðalfundur hjúkrunarráðs 2015 um Félagsdómsniðurstöðu og endurnýjun húsakosts
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á aðalfundi hjúkrunarráðs Landspítala 30. október 2015:
Félagsdómur í máli ljósmæðra
Hjúkrunarráð Landspítala gagnrýnir Fjársýslu ríkisins fyrir að ljósmæður hafi ekki fengið greitt fyrir unnin störf á meðan á verkfallsaðgerðum þeirra stóð. Ljósmæður skipulögðu verkfallsaðgerðir sínar með hagsmuni skjólstæðinga sinna að leiðarljósi.
Hjúkrunarráð hefur áhyggjur af að í framtíðinni verði harðari aðgerðir valdar í mögulegum kjaradeilum heilbrigðisstétta og skorar á yfirvöld að breyta reglum svo reikniforsendur verði aðrar og fólk fái greitt fyrir unnin störf.
Tafarlaus endurnýjun húsakosts
Hjúkrunarráð hefur um áraraðir ályktað um nauðsyn endurnýjunar húsakosts Landspítala. Núverandi húsnæði ógnar öryggi sjúklinga og er heilsuspillandi. Það heftir möguleika á endurnýjun tækjakosts vegna aðstöðuleysis og kostnaður vegna flutninga sjúklinga, starfsfólks, sýna o.fl. milli húsa er mikill, fyrir utan dýrmætan tíma sem daglega fer þannig til spillis. Nýtt húsnæði og sameining bygginga þar sem bráðaþjónustu er sinnt myndi gjörbylta aðstæðum og þjónustu auk þess að bæta öryggi. Mikil og fagleg undirbúnings- og hönnunarvinna hefur átt sér stað á síðustu misserum og hjúkrunarráð leggur áherslu á mikilvægi þess að engar tafir verði á verkefninu.