Yfirlýsing frá Landspítala:
Vegna fullyrðinga í fréttatíma Stöðvar 2 að kvöldi 1. nóvember s.l. vill Landspítali leiðrétta þá rangfærslu að sjúklingum hafi stafað bein hætta af, eða jafnvel látist, vegna rafrænna sjúkraskrárkerfa sem eru í notkun á spítalanum. Þá er einnig ranghermt að skoðun atvikaskráninga hafi leitt slíkt í ljós.
Mikilvægi gæða rafrænna sjúkraskrárkerfa á Landspítala, sem og annars staðar, verður ekki ofmetið. Fyrir liggur alþjóðleg úttekt (HIMSS) á kerfum LSH. Niðurstöður þeirrar úttektar voru nýlega kynntar framkvæmdastjórn spítalans þar sem fram kom að kerfin raðast um miðbik mælikvarða miðað við Evrópska staðla. Það eru hins vegar fjölmörg tækifæri til þróunar og bætingar. Landspítali, ásamt öðrum aðilum, stendur að stöðugri endurskoðun og þróun sinna kerfa og lítur á þá vinnu sem mikilvægt öryggismál fyrir sjúklinga.
Undanfarin misseri hefur Landspítali lagt sérstaka áherslu á gæða- og öryggismál. Ef marka má reynslu þeirra sjúkrastofnana erlendis sem hafa náð lengst í gæða- og öryggismálum, lýkur slíkri vinnu aldrei. Meðal annars hefur fagleg úrvinnsla alvarlegra atvika verið efld til muna. Eins og þekkt er á alþjóðavísu er skýringa alvarlegra atvika oftast að leita í flóknu ferli samskipta, skráninga, eftirfylgni og fleiri þátta. Þótt sjúkraskrárkerfi komi við sögu í hluta slíkra mála eru þau ekki afgerandi þáttur í neinu þeirra mála sem Landspítali hefur tekið til skoðunar.
Á Landspítala fara fram þúsundir aðgerða og meðferða á degi hverjum og þar er mannslífum bjargað daglega. Starfsfólk leggur sig allt fram við að tryggja öryggi sjúklinga, oft við erfiðar aðstæður. Markmiðið er að bæta sífellt þjónustuna og endurskoða ferla sem ekki skila fullnægjandi árangri. Mikilvægt er að vanda til umfjöllunar um flókna starfsemi Landspítala enda rétt og fagleg umfjöllun um misbresti sem verða í flókinni starfsemi, framförum og umbótum nauðsynleg og mikilvæg.