Í verkefninu voru könnuð áhrif notkunar ónæmisglæðisins LT-K63 með pneumókokkabóluefninu Pnc1-TT við bólusetningar nýbura en ónæmisglæðar eru ónæmisörvandi efni sem auka virkni bóluefna.
Árlega deyja um 6 milljónir barna undir 5 ára aldri. Um það bil helmingur þessara dauðsfalla er vegna sýkinga sem hægt er að koma í veg fyrir með bólusetningum en bólusetningar eru ein áhrifaríkasta leiðin til að útrýma lífshættulegum sýkingum.
Pneumókokkasýkingar valda dauða um það bil milljón barna undir 5 ára aldri á hverju ári. Ónæmiskerfi ungbarna er vanþroskað og þess vegna mynda þau ekki jafngóð svör við bólusetningum og fullorðnir og því þarf að bólusetja börn nokkrum sinnum til að fá fram vörn. Mikilvægt er að þróa frekari leiðir til þess að auka svörun ungbarna við bólusetningum gegn lífshættulegum sýkingum.
Niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós að þegar ónæmisglæðirinn LT-K63 var gefinn nýburamúsum með bóluefninu Pnc1-TT sýndu þær fullorðinslegri og langlífari ónæmissvör en mýs sem fengu aðeins bóluefnið. Þessi aukna virkni fylgdi hlutfallslegri aukningu tveggja frumugerða í beinmerg (sem á ensku kallast eosinophils og megakaryocytes) sem seyttu meira af boðefnunum APRIL og IL-6, en þau eru talin mikilvæg fyrir langlíf ónæmissvör.
Niðurstöðurnar varpa ljósi á ferla sem eru mikilvægir til að yfirvinna takmarkaða ónæmissvörun nýbura. Frekari skilningur á þeim getur leitt til þróunar öflugri bóluefna til notkunar í ungbörnum sem veita betri vörn við hættulegum sýkingum og draga úr fjölda bólusetninga.
Verkefnið var unnið á ónæmisfræðideild Landspítala undir handleiðslu Ingileifar Jónsdóttur prófessors og dr. Stefaníu P. Bjarnarson og styrkt af Vísindasjóði Landspítala og Rannsóknarsjóði Rannís.
Frekari niðurstöður má finna í ágripi verkefnisins á Skemmunni