Veruleg skerðing er (...) á allri starfsemi spítalans. Áhersla er lögð á að tryggja öryggi sjúklinga eftir föngum og lágmarka röskun á bráðastarfsemi. Mikilvægt er að hafa í huga að áhrif þessara aðgerða bætast ofan á mjög íþyngjandi aðgerðir annarra stéttarfélaga fyrr á árinu. Sýnilegra áhrifa gætir einna helst á skipulögðum aðgerðum og meðferðum, sem enn er frestað nema þeim sem teljast bráðar eða brýnar. Öll regluleg starfsemi á Landspítala, s.s. virknimeðferðir fyrir langveika (m.a. á geðdeildum og öldrunardeildum) er takmörkuð, þjónusta á dag- og göngudeildum er skert sem og endurhæfing á Grensás. Dregið hefur verið úr opnum legurýmum á bráðadeildum og töldu þau um 50 á skurðdeildum og fyrir liggur að flæði sjúklinga á spítalanum verður þungt, haldi áfram sem horfir.
Enn og aftur biðla ég því lengstra orða til deiluaðila að vinna að því öllum árum að ná samkomulagi sem allra fyrst.Á síðasta ári urðu umtalsverðar breytingar á skipuriti Landspítala sem náðu til klínískra sviða og um leið tilkynnt að breytingar á stoðsviðum yrðu kynntar síðar. Nýtt skipurit Landspítala mun taka gildi 1.12.2015 en breytingar eru litlar að þessu sinni. Þó er markmið þeirra að framkvæmdastjórn spítalans endurspegli áherslur á mannauðsmál og þróun, sem og uppbyggingu innviða stofnunarinnar. Helstu breytingar eru þær að verkefni mannauðsdeildar færist á nýtt Mannauðssvið í samræmi við aukna áherslu framkvæmdastjórnar á mannauðsmál. Þá færast verkefni aðstoðarforstjóra til nýs framkvæmdastjóra þróunar, sem m.a. mun leiða stefnumörkunarvinnu spítalans og hafa yfirumsjón með aðkomu Landspítala að uppbyggingu við Hringbraut. Báðar stöðurnar eru auglýstar nú í október.
Í vikunni héldu samtökin "Spítalinn okkar" vel sótt og upplýsandi málþing um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Enn heyrast raddir sem tala gegn þessum brýnu áformum með óljósum eða óframkvæmanlegum hugmyndum um hvernig bregðast skuli við þeim brýna vanda sem þjóðarsjúkrahúsið glímir við. Í meðfylgjandi upptöku frá fundinum er skipulega farið yfir málið og þá miklu hagsmuni sem í húfi eru.