Á þriðjudag urðu tímamót í íslenskri heilbrigðisþjónustu og meiri háttar áfangi náðist í lýðheilsu þjóðarinnar. Tilkynnt var um samstarf Landspítala, íslenskra heilbrigðisyfirvalda og Gilead Sciences um átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi. Sjá myndband hér neðan. Upphaf þessa máls má rekja til læknis á Landspítala, Sigurðar Ólafssonar meltingarsérfræðings, sem hefur verið vakinn og sofinn yfir velferð þessa sjúklingahóps. Sigurður hefur ásamt fjölmörgu góðu fólki, þar sem María Heimisdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs er fremst í flokki, unnið þrotlaust að málinu í tæpt ár með þessari ánægjulegu niðurstöðu. Ekki þarf að rekja mikilvægi þessarar meðferðar fyrir sjúklinga en samhliða meðferðinni fer af stað stórt rannsóknarverkefni, styrkt myndarlega af stjórnvöldum, sem gagnast mun til framtíðar.
Ég vil minna ykkur á málþing samtakanna Spítalinn okkar, sem haldið verður þriðjudaginn 13. október kl. 16-18 á Icelandair Hotel Reykjavik Natura. Málþingið fer fram undir yfirskriftinni "Nýr Landspítali loks í augsýn" og meðal framsögumanna eru starfsmenn Landspítala og fyrrverandi forstjóri, Hulda Gunnlaugsdóttir. Fjallað verður um verkefnið frá ýmsum sjónarhornum, m.a. kostnað, tækniþróun, öryggi sjúklinga, hlutverk þess í fræðasamfélaginu og í skipulagi borgar.
Á fimmtudaginn í næstu viku hefst verkfall Sjúkraliðafélags Íslands og SFR, ef ekki semst fyrir þann tíma. Enn verður skerðing á starfsemi spítalans og sjúklingar munu að sjálfsögðu verða þess varir. Mér leiðist að endurtaka mig - en ég biðla enn og aftur til viðsemjenda að ná saman áður en til verkfallsaðgerða kemur. Það er nóg komið.