Á síðasta ári söfnuðust 15 milljónir og í framhaldinu var fest kaup á nýjum beinþéttnimæli en sá sem fyrir var var kominn til ára sinna og orðinn nær óstarfhæfur. Í ár er markmiðið að safna aftur 15 milljónum og verða þær nýttar til að stórbæta tækjabúnað og starfsaðstöðu á bæklunarskurðdeild Landspítala. Til stendur að endurnýja skurðarborð og lyftara sem léttir undir með skurðlæknum og -hjúkrunarfræðingum meðan á aðgerð stendur og mun hvort tveggja stórbæta vinnuumhverfi deildarinnar, starfsfólki sem og sjúklingum í hag.
Mjólkurfernan sem gefur styrkinn er D-vítamínbætt léttmjólk í ljósgulri fernu og í ár prýðir fernuna málverk eftir íslensku listakonuna Gunnellu sem ber heitið Auðhumla. Frá kúnni Auðhumlu streymdu fjórar mjólkurár sem nærðu jötuninn Ými en í túlkun listakonunnar reynast þær jafnframt prýðisgóðar laxveiðiár. Á nýju fernunni eru skýr skilaboð um átakið en að öðru leyti er varan nákvæmlega sú sama og sú sem fyrir er og hverfur af markaði í nokkrar vikur meðan á átakinu stendur. Með því að kaupa góðgerðarfernuna á sama verði og fyrr, geta neytendur hjálpað að við að styrkja gott málefni og lagt sitt af mörkum til að bæta tækjakost Landspítalans.
Nýr tækjabúnaður eykur öryggi sjúklinga
Um 2.500 bæklunarskurðaðgerðir eru framkvæmdar á Landspítala á hverju ári. Nýja skurðarborðið er úr koltrefjum sem gefur góða gegnumlýsingu við myndgreiningu í aðgerðum sem og sneiðmyndatöku. Gömlu skurðarborðin eru með stálgrind sem truflar myndgreiningu. Með þessu skapast forsendur fyrir notkun nýjustu tækni við framkvæmd t.d. hryggjaraðgerða og speninga.
Á nýju skurðarborði er einnig sérstakur toppur sem verður notaður í aðgerðum vegna ýmissa flókinna brota, t.d. á lærleggjum. Þá mun lyftarinn bæta verulega öryggi og þægindi við allan undirbúning og meðhöndlun sjúklinga með beinbrot og þeirra sem fara í liðskiptaaðgerðir á hné og mjöðm. Hingað til hefur starfsfólk notast við vöðvaafl og ófullkominn búnað til að halda útlimum sjúklinga stöðugum í aðgerðum. Lyftarinn mun því gjörbreyta vinnuumhverfi starfsfólks auk þess sem hann mun auka öryggi sjúklinga.
Hér neðan eru eru myndir frá því þegar Ari Edwald, forstjóri MS, afhenti Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala, fyrstu fernuna á einni skurðstofu spítalans í dag.