Stefnt er að því að árið 2016 verði engin rannsóknarsvör og beiðnir á pappír hjá rannsóknarsviði Landspítala þar sem rafræn útfærsla er til staðar. Rafrænar beiðnir og svör er eitt lykilverkefna sviðsins. Markmið verkefnisins er að koma rannsóknarsvörum til allra sem hafa hag af með rafrænum hætti og að sem flestar rannsóknarbeiðnir verði einnig á rafrænu formi.
Nú fer um 1 tonn af pappír í rannsóknarbeiðnir og svör á ári. Pappírsflóðið fyllir marga hillumetra í geymslum rannsóknarsviðs, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Fyrir utan umhverfislegan ávinning við þennan pappírssparnað þá er rafræn miðlun upplýsinga mun öruggari og skjótari auk þess sem aðgengi þeirra sem annast meðferð að upplýsingum stórbatnar.