Geðlæknar og innkirtlalæknar á Landspítala fengu til sín gesti frá The Gender Dysphoria Clinic in Amsterdam í Hollandi dagana 10. og 11. september 2015, Daniel Klink, innkirtlalækni barna, og Thomas Steensma sálfræðing. Þeir héldu fyrirlestra fyrir þau teymi sem annast transfólk á göngudeildum geðdeildar og innkirtladeildar. Steensma og Klink fjölluðu einkum um kynáttunarvanda barna en hann hefur aukist talsverð hér á landi, sem annars staðar.
Arna Guðmundsdóttir, sérfræðilæknir í innkirtla- efnaskiptasjúkdómalækningum, segir að kynningar þeirra hafi verið bæði gagnlegar og ánægjulegar. Mikilvægt sé að standa vel að greiningarvinnunni hjá þessum sjúklingahópi en rannsóknir hafi sýnt að um 80% af börnum með kynáttunarvanda hætti í ferlinu og haldi ekki áfram í kynleiðréttingu þegar þau vaxi úr grasi. Því sé áríðandi að teymin sem koma að þessari vinnu séu með skýra verkferla og öfluga samvinnu.