Mörgum er eflaust í fersku minni ófremdarástand á lyflækningasviði spítalans fyrir tveimur árum. Á því hefur nú verið tekið með samstilltu átaki lyflækna á Landspítala, stjórnenda spítalans og ráðherra heilbrigðismála. Við uppbyggingu á lyflækningasviði var framhaldsnámið sett í forgang. Lagðir voru sérstakir fjármunir og mannafli til verksins, og framhaldsnám í lyflækningum á Landspítala endurskipulagt. Undirstöður hafa verið lagðar til tryggja framhaldsnáminu styrkan sess og sviðið hefur skýra sýn hvert það stefnir með framhaldsnámið. Námslæknum þykir aftur eftirsótt að fá námsstöðu í lyflækningum og berast nú fleiri umsóknir um námsstöður en hægt er að sinna.
Fyrr á þessu ári setti ráðherra heilbrigðismála nýja reglugerð er varðar sérnám í lækningum. Þar eru gerðar mun meiri kröfur til sérnáms en áður. Sérstök nefnd metur hæfi heilbrigðisstofnunar til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun til að annast sérnám. Sérstaklega er tekið fram að leita skuli alþjóðlegrar ráðgjafar og að skipulagi sérnáms skuli þannig háttað að alþjóðlegum gæðaviðmiðum sé mætt.
Við endurskipulagningu á sérnámi í lyflækningum var ákveðið að leita til Royal College of Physicians um ráðgjöf og samstarf. Sú stofnun er ein sú virtasta í heimi á sínu sviði. Samstarfið felur m.a. í sér að Íslendingar fá aðgang að námskröfum þeirra og rafrænu skráningarkerfi. Skrifleg próf verða haldin hér á landi en verkleg próf í Bretlandi. Standist námslæknar þessar kröfur munu þeir fá nafnbótina MRCP (Member of the Royal College of Physicians) sem er alþjóðlega viðurkennd nafnbót sem eykur enn frekar möguleika íslenskra lækna til sérfræðimenntunar við virtar erlendar stofnanir. Royal College of Physicians mun taka út samstarfið sem vonast er eftir að leiði til vottunar framhaldsnámsins.
Það er sérlega ánægulegt að Sjúkrahúsið á Akureyri muni verða í samvinnu við Landspítala um framhaldsnámið og hafa því námslæknar tækifæri til að sinna námi sínu á báðum sjúkrahúsunum. Boðið verður upp á fyrri hluta sérnáms á Íslandi sem taka mun þrjú ár, en frekara sérnám verði erlendis.
Athöfn verður í Hátíðarsal Háskóla Íslands til að fagna samstarfinu og hefst hún klukkan 17:00 í dag, fimmtudag 3. september 2015.
Páll Matthíasson
forstjóri Landspítala