Grunnstoðin í íslenska heilbrigðiskerfinu er vel menntað og þjálfað starfsfólk sem skapað hefur þann árangur sem náðst hefur í heilbrigðismálum landsmanna.
Hjúkrunardeildarstjórar á Landspítala lýsa yfir verulegum áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna uppsagna hjúkrunarfræðinga og benda á að ef til þeirra komi verði afleiðingar alvarlegar fyrir sjúklinga spítalans og samfélagið allt. Alls hafa á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga sagt upp starfi sínu og margir þeirra búa yfir sérhæfðri þekkingu. Án þeirra verður Landspítali ekki rekinn í núverandi mynd.
Uppsagnir hjúkrunarfræðinga á Landspítala eiga sér nokkurra ára aðdraganda, sem snýst ekki eingöngu um laun, heldur líka mikið vinnuálag, erfiðan vinnutíma, slæman aðbúnað og mikla ábyrgð. Mikil eftirspurn er eftir hjúkrunarfræðingum víða í heiminum og á síðustu árum hafi margir íslenskir hjúkrunarfræðingar horfið af landi brott og starfa nú erlendis.
Þjónusta Landspítala byggir á samvinnu margra fagstétta þar sem hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykkið. Þegar þessar uppsagnir taka gildi horfum við fram á algjört hrun í margvíslegri sérhæfðri starfsemi. Sem dæmi má nefna gætu hjartaþræðingar og hjartaaðgerðir á landsvísu lagst af og starfsemi gjörgæsludeilda spítalans yrði í uppnámi.
Á Landspítala liggja sjúklingar sem þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda sem krefst mikillar fagþekkingar. Fagleg þekking, þjálfun og þróun sérþekkingar er byggð upp á löngum tíma og er kostnaðarsöm. Reynsla okkar er sú að mönnun í gegnum starfsmannaleigur, hvort sem þær eru erlendar eða innlendar komi niður á slíkri þróun, og komi ekki í stað fastráðins starfsfólks sem hefur aðrar skyldur gagnvart spítalanum og skjólstæðingum hans.
Við sem stjórnendur á Landspítala sem berum ábyrgð á þeirri hjúkrunarþjónustu sem veitt er sjáum nú fram á að vel menntaðir og þjálfaðir hjúkrunarfræðingar sem hafa starfað lengi á Landspítala muni hverfa frá störfum. Hjúkrunarfræðingar eru stoltir af sínu fagi og vilja starfa við það, en þeir þurfa að finna að starf þeirra, menntun, ábyrgð og reynsla sé metin að verðleikum og að þeir njóti launakjara til samræmis við það. Það er því afar brýnt að bæta kjör og starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga svo heilbrigðiskerfið á Íslandi verði samkeppnishæft við önnur lönd um starfskrafta þeirra. Tíminn er naumur, þeim mun lengur sem þessi óvissa ríkir verður erfiðar að snúa þessu ástandi við og er hætta á að fleiri segi upp. Það þarf kjark og samstöðu til að snúa þessari þróun við.
Hjúkrunardeildarstjórar skora á stjórnvöld að ná sáttum í launabaráttu hjúkrunarfræðinga því sú lausn að leita eftir þjónustu erlendra hjúkrunarfræðing eða ráða inn hjúkrunarfræðinga í gegnum starfsmannaleigur mun hafa í för sér meiri kostnað og hnignun í faglegri þróun. Stjórnvöld þurfa að koma með afdráttarlaus svör um að málið verði leyst á viðunandi hátt.