Aðstandendur WOW cyclothon hjólreiðakeppninnar 2015 hafa afhent fulltrúum geðsviðs Landspítala tæpar 22 milljónir króna sem söfnuðust með áheitum á keppendur.
Hjólreiðakeppnin fór fram dagana 23.-26. júní í blíðskaparveðri en um það bil 1.000 þátttakendur hjóluðu hringinn í kringum landið, ýmist í liðaformi eða einir. Keppnin hefur vaxið mikið á undanförnum árum og stefnir hraðbyri í að verða ein stærsta ,,Ultra cycling” keppni heims ef miðað er við fjölda þátttakenda.
Í ár söfnuðust 21.728.250 krónur og verður styrkurinn notaður til að byggja upp Batamiðstöð á Kleppi. Batamiðstöðinni er ætlað að þjónusta notendur geðsviðs með því að bjóða upp ýmis úrræði og virkni sem geta stuðlað að auknum bata.