Gerð er tilraun með það á „nýja spítala“ á Landspítala Hringbraut að samræma hvar sýni eru geymd og hvernig. Sýni eru nú geymd á pinnum við vegg á gangi deildar nálægt vakt, ásamt póstbökkum. Með merkjakerfi er ekki lengur þörf á að kíkja í alla kæla, þess í stað setja deildir upp merki ef sýni er í kæli.
Mælingar sem gerðar hafa verið fyrir og eftir breytingu sýna að vinnusparnaður í föstum sýnaferðum vegna þessara breytinga samsvarar 36 klukkustundum á ári eða næstum því heilli vinnuviku. Ávinningurinn er því ekki bara öruggari sýnaflutningar heldur einnig minna álag. Í haust verður hafist handa við að innleiða sams konar samræmingu á „gamla spítala“ á Landspítala Hringbraut, kvennadeildum þar, barnaspítala og á Landspítala Fossvogi.
Árangur af umbótaverkefni
Eitt af verkefnunum sem ákveðin voru í umbótaverkefninu „Öruggari sýnaflutningar“ var að samræma geymslu sýna til að stytta fastar sýnaferðir og minnka hættu á að eitthvað gleymist. Fyrir breytingu var mjög misjafnt eftir deildum hvar og hvernig sýni voru geymd og víðast þurfti að fara inn í ritarabúr og kíkja bak við hurðir. Einnig þurfti að kíkja í alla sýnakæla til að athuga hvort sýni væru þar. Þetta leiddi bæði til óþarflega langra sýnaferða og gat leitt til þess að menn gleymdu að kíkja hér eða þar eftir sýnum vegna þess hversu mismunandi þetta var. Talningar sýndu einnig að þótt verið væri að kíkja í sýnakæla í hverri einustu föstu sýnaferð þá voru þar sjaldnast sýni.