Gjöfin kemur að góðum notum þar sem ekki hefur verið unnt að endurnýja allan ljósabúnað af þessu tagi síðustu ár.
„Vörpum ljósi á Rótarý“ er kjörorð og markmið alþjóðahreyfingarinnar árið 2015. Félögum fannst það því falla vel að markmiði hreyfingarinnar að gefa spítalanum ljósið. Ráðist var í söfnun fyrir því og lögðu Rótarýfélagar um allt land henni lið. Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, afhenti Tómasi Guðbjartssyni, hjarta- og lungnaskurðlækni, höfuðljósið á Landspítala 18. júní 2015.
Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi:
„Rótarý eru fremstu mannúðar- og þjónustusamtök í heimi. Við erum fjölbreytt, alþjóðlegt samfélag félaga sem koma úr forystu ýmissa starfsgreina og beita sér fyrir betra lífi, góðvild og friði, í heimalandi og erlendis. Þegar við heyrðum af þessari þörf hjá Landspítala þótti okkur kjörið að „varpa ljósi á Landspítala og Rótarý“ og réðumst þess vegna í söfnun hjá Rótarýklúbbum um land allt. Þannig tókst okkur að safna fyrir verkefninu. Það er okkur, hjá Rótarýumdæminu á Íslandi, því sönn ánægja að gefa skurðstofu Landspítala þessa mjög þörfu gjöf.“
Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir og prófessor:
„Þetta er frábært framtak hjá Rótarý sem við erum afar þakklát fyrir. Gjöfin mun koma að góðum notum enda eru höfuðljós t.a.m. notuð í öllum hjarta- og lungnaaðgerðum sem framkvæmdar eru á spítalanum. Við þökkum Rótarý á Íslandi fyrir einstakan velvilja í okkar garð.“