Hjúkrunarráð Landspítala varar við hruni í íslensku heilbrigðiskerfi sem yfirvofandi atgervisflótti hjúkrunarfræðinga í kjölfar lagasetningar Alþingis á verkfallsrétt þeirra 14. júní sl. mun leiða af sér. Skortur á hjúkrunarfræðingum er raunverulegur nú þegar og nýliðun innan stéttarinnar svarar ekki vaxandi þörf. Nauðsynlegt er að gera hjúkrunarstarfið eftirsóknarvert og samkeppnishæft svo eðlileg nýliðun verði. Aðgerðir stjórnvalda og tregða til samninga hafa gert slíkt ómögulegt.
Hjúkrunarfræðingar hafa í auknum mæli horfið til annarra starfa þar sem þeir treysta sér ekki til þess að vinna við núverandi aðstæður á Landspítala. Hjúkrunarfræðingar treysta sér ekki til að tryggja öryggi sjúklinga sinna og treysta ekki á að öryggi þeirra í starfi sé tryggt.
Hjúkrunarráð skorar á deiluaðila að ljúka samningum.
Landspítali má ekki við frekari uppsögnum.