Læknirinn og trúðurinn Patch Adams heimsótti börn og fullorðna á Barnaspítala Hringsins 11. júní 2015. Hann skemmti þar af sinni kunnu snilld og vakti mikla kátínu. Patch Adams er hér á landi í boði Hugarafls og heldur fyrirlestur í Háskólabíói 14. júní. Hugarafl er félagsskapur fólks með geðraskanir.
Margir þekkja til Patch Adam af kvikmynd um æfi hans sem gerð var árið 1998 með Robin Williams í aðalhlutverki. Patch hefur verið iðinn við að ferðast um heiminn og lina þjáningar fólks með glens og kærkleika að vopni.
Nánar um verk Patch Adams:
Patch lærði læknisfræði og var kennurum sínum og skólastjórn erfiður þegar
hann reyndi að lífga upp á námið og umönnun sjúklinga með kærleik og húmor
að vopni. Trúðsnef og fíflalæti féllu sjúklingum vel í geð.
Sem læknir vill hann gefa sjúklingum sínum tíma og meðhöndla sjúklinga sína
sem manneskjur en ekki sem bilaðar vélar. Patch stofnaði seinna The Gesundheit Institute,
stofnun/sjúkrahús, eða kannski réttara að kalla það samfélag. Þar geta allir
komið og notið læknisþjónustu, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir. Allir á
staðnum eru jafnir, hvort sem það eru læknar, notendur/sjúklingar,
hjúkrunarfólk, kokkar eða ræstingafólk. Framlag allra er jafnt metið.
Starfsfólk gefur vinnuna sína og ætíð er biðlisti að komast að sem læknir
þar. Lögð er áhersla á óhefðbundnar lækningar, samhliða þeim hefðbundnu og
alltaf lagt mikið upp úr kærleik og húmor.